'Tuscany Superb' er ein af tveimur rósum sem ég átti í gamla garðinum mínum, hin heitir 'Hippolyte'. Ég flutti báðar með mér og báðar lifa enn, en 'Tuscany Superb' hefur alltaf verið gróskumeiri og viljugri til að blómstra. Gallica rósir blómstra á gamlar greinar og því verður blómgun engin ef þær kelur mikið. 'Tuscany Superb' kelur yfirleitt eitthvað, en ekki það mikið að hún nái ekki að blómstra. Hún blómstraði meira að segja eitthvert rigningasumarið eftir að við fluttum, kannski 2014, þegar fáar rósir blómstruðu. Blómin eru þeim kosti gædd að þola vel rigningu.
Ég pantaði gallica rósina 'Merveille' frá Garðyrkjufélaginu í fyrra og hún blómstraði í fyrsta sinn í sumar. Það á eftir að koma í ljós hvernig hún reynist og hvort hún sé jafnvel enn harðgerðari en þessi.